Þann 3. janúar síðastliðinn var 19. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands haldin. Þar var kynning á yfir 200 verkefnum á sviði heilsu og velferðar, m.a. eldri aldurshópa. Fjallað var m.a. um stuðning við heilabilaða og fjölskyldur þeirra, umfang og eðli óvæntra atvika á sjúkrahúsum, næringu aldraðra og barna með geðraskanir.

Janus Friðrik GuðlaugssonIngvi Guðmundsson og Þóroddur Einar Þórðarson sögðu frá verkefni Janusar heilsueflingar í Reykjanesbæ og Hafnarfirði um áhrif fjölþættrar heilsueflingar á eldri aldurshópa. Niðurstöður verkefnisins hafa sýnt fram á einstaklega jákvæðar breytingar til bættrar heilsu fyrir eldri aldurshópa.

Mörg áhugaverð erindi voru á ráðstefnunni, m.a. erindi frá Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur sem fjallaði um það hvernig æskilegt er að takast á við síðari æviskeið lífsins. Árelía hefur m.a. ritað bókina; Sterkari í seinni hálfleik. Hvetjum við ykkur til að ná ykkur í eintak eða fá bókina að láni í næsta bókasafni. Sólveig Ása Árnadóttir fjallaði um hrumleika eldra fólks og undirliggjandi skerðingar.

Einnig má nefna að Berglind Blöndal var með áhugavert innlegg á tíðni og afleiðingar vannæringar hjá eldri aldurshópum hér á landi og Sigrún Sunna Skúladóttir fjallaði um doktorsverkefni sitt sem nær m.a. til beinþéttnimælinga og tengslin við næringu, m.a. mikilvægi D-vítamíns í fæðunni. Árni Árnason stýrði málstofunum Heilsa á efri árum I og II um ofangreind efni og gerði það með miklum sóma.