Farsæl efri ár með markvissri heilsueflingu var yfirskrift erindis sem Janus flutti á 80 ára afmæli Sjómannadsgsráðs og Hrafnistuheimilanna í Hörpu þann 21. nóvember 2017 en um 400 manns sóttu ráðstefnu Sjómannadagsráðs og Hrafnistuheimilanna, sem þótti einstaklega vel heppnuð.

Fyrirlestur á Hrafnistu

Fyrirlestur á Hrafnistu

Þar fjallaði Janus m.a. um hvað væri heilsuefling og rök fyrir því að huga þurfi betur að heilsueflingu eldri aldurshópa hér á landi á næstu árum. Heilsuefling er mjög mikilvægur þáttur í lífi hvers einstaklings og hefur heilsan snertiflöt við hvern einstakling og samfélagið í heild sinni.

Þá er það mat flestra að heilsa og heilsuvernd sé grundvallarréttur allra (eldri) einstaklinga. Heilsan er eitt mikilvægasta forspágildi fyrir lífsgæði og lífsánægju á efri árum og því er heilsuefling lykill í ferli eldri borgara.

Janus fjallaði jafnframt um sjónarhorn lífsferlis til að viðhalda hæsta mögulega stigi hreyfitengdrar afkastagetu og sýndi myndræna nálgun um hve mikilvægt það er fyrir alla einstaklinga að velja sér lífsstíl eða lífsstílslínu snemma á lífsleiðinni. Slík leið gefur eldri einstaklingum kleift að takast lengur á við athafnir daglesgs lífs þegar þeir eldast, geta búið lengur í sjálfstæðri búsetu, hafa möguleika á að dvelja lengur á vinnumarkaði og markviss heilsuefling getur komið í veg fyrir eða seinkað innlögn eldri einstaklinga á dvalar- og hjúkrunarheimili. Þá bætir heilsusamlegur lífsstíll lífsgæði og getur um leið haft fjárhagslegan ávinning fyrir hið opinbera og sveitarfélögin þegar horft er til lengri tíma.

Myndir af ráðstefnunni má finna á vef Hrafnistu.