Fimmtudaginn 25. janúar næstkomandi mun Janus heilsuefling standa fyrir kynningarfundi fyrir þá sem áhuga hafa á að taka þátt í heilsueflingar- og rannsóknarverkefninu Fjölþætt heilsurækt 65+ í Hafnarfirði – Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa.

Verkefnið er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar, Janusar heilsueflingar, Félags eldri borgara í Hafnarfirði og Íþróttabandalags Hafnarfjarðar og er liður í áherslu sveitarfélagsins að hvetja og efla íbúa bæjarins til hreyfingar og hollra lífshátta.

Eitt af megin markmiðum þessa heilsueflingar- og rannsóknarverkefnis er að bjóða upp á fjölþætta heilsuræktarþjálfun í eitt og hálft ár, með áherslu á þol- og styrktarþjálfun auk fræðsluerinda um heilsu og velferð. Jafnframt er stefnt að því að kanna afkastagetu, daglega hreyfingu og hreyfifærni eldri aldurshópa í Hafnarfirði í upphafi verkefnisins og síðan á 6 mánaða fresti. Greiðsluþátttöku er stillt í hóf og gerð í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ en eldri borgarar geta nýtt sér frístundastyrki í verkefnið.

Staður og stund
Boðið verður uppá tvær tímasetningar á kynningarfundi. Annars vegar kl 14:00 í Hraunseli að Flatahrauni 3 og síðan kl 19:30 í húsnæði Tækniskólans að Flatahrauni 12. Báðir fundirnir verða haldnir fimmtudaginn 25. janúar.
 
Umsókn um þátttöku í verkefnið
Að loknum kynningarfundi er hægt að sækja um þátttöku í verkefnið, en það er einnig hægt að gera í gegnum netfangið; janus@janusheilsuefling.is.

Samstarfsaðilar: