Fjölþætt heilsuefling 67 ára og eldri í Garðabæ

Kynningarfundur á verkefninu Fjölþætt heilsuefling 67+ í Garðabæ á vegum Janusar heilsueflingar í samstarfi við Félag eldri borgara í Garðabæ (FEBG) var haldinn fimmtudaginn 26. ágúst í Jónshúsi. Vegna mikils áhuga á verkefninu var ákveðið að halda tvo kynningarfundi sem ekki reyndist vanþörf á því húsfyllir var á báðum fundunum. Á fundinum var farið yfir hugmyndafræði og skipulag verkefnisins sem snýst um að koma á fót markvissri heilsueflingu með lýðheilsutengdu inngripi byggt á raunprófanlegum aðferðum.

Fyrsti hópurinn fer af stað

Stefnt er að því að fara af stað með verkefnið í byrjun september mánaðar. Óhætt er að segja að Garðbæingar taki þessu verkefni fagnandi hendi því fjöldamargar umsóknir um þátttöku hafa borist nú þegar. Til að byrja með verða 80 þátttakendur teknir inn í verkefnið en seinna meir verður vonandi mögulegt að mæta eftirspurninni með því að fjölga þátttakendum í verkefninu. Það ríkir því mikil spenna og eftirvænting að fara af stað með fyrsta hópinn í Garðabænum og ber að þakka FEBG fyrir þeirra aðkomu að innleiðingu verkefnisins í sveitarfélaginu.