Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja og Dr. Janus Guðlaugsson íþrótta- og heilsufræðingur undirrituðu í dag samstarfs-samning um heilsueflingar- og forvarnarverkefnið „Fjölþætt heilsuefling 65+ í Vestmannaeyjum”

 

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja og Dr. Janus Guðlaugsson íþrótta-og heilsufræðingur skrifuðu undir samstarfssamningin í dag.

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja og Dr. Janus Guðlaugsson íþrótta- og heilsufræðingur skrifuðu undir samstarfssamningin í dag.

Markmið verkefnisins er meðal annars að gera fólk hæfari til að takast á við breytingar sem fylgja hækkandi aldri. Með markvissri þátttöku í þol- og styrktaræfingum auk ráðgjafar um holla næringu og aðra heilsueflandi þætti getur fólk spyrnt við fótum gegn öldrunareinkennum samhliða því að bæta heilsu sína og lífsgæði.

Verkefnið hefst með heilsufarsmælingum sem eru endurteknar á 6 mánaða fresti. Verkefnið er nú þegar að skila einstökum árangri í Reykjanesbæ og Hafnarfirði.

Verkefnið mun fara af stað í Vestmannaeyjum í lok sumars. Sólrún Erla Gunnarsdóttir, deildarstjóri öldrunarmála, verður tengiliður við verkefnið hjá Vestmannaeyjabæ en íþrótta- og heilsufræðingarnir Óla Heiða Elíasdóttir og Erlingur Richardsson munu sjá um þjálfunina. Þjálfunin mun fara fram í líkamsræktarstöðinni Litla Hressó í Íþróttamiðstöðinni og í knattspyrnuhöllinni.

Að verkefninu koma auk Vestmannaeyjabæjar og Janusar heilsueflingar, Félag eldri borgara í Vestmannaeyjum, Íþróttabandalag Vestmannaeyja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum og Líkamsræktarstöðin Hressó.

Nánari kynning á verkefninu mun verða um mánaðarmótin ágúst/september og verður hún auglýst síðar. „Við væntum góðrar þátttöku Vestmannaeyjinga í þessu frábæra verkefni þeim til hagsbóta og betri heilsu,” segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.

Mynd frá undirritun samnings föstudaginn 28. júní síðastliðinn.

Mynd frá undirritun samnings föstudaginn 28. júní síðastliðinn. Á myndinni eru auk Janusar Guðlaugssonar og Írisar Róbertsdóttur bæjarstóra, Hjörtur Kristjánsson læknir frá heilsugæslunni í Vestmannaeyjum, Þór Vilhjálmsson, formaður félags eldri borgara í Vestmannaeyjum ásamt félögum hans í stjórninni, Ólöf Heiða Elíasdóttir íþrótta- og heilsufræðingur, Sólrún Gunnarsdóttir tengiliður við verkefnið frá Vestmannaeyjabæ auk Láru verkefnastjóra frá Janusi heilsueflingu.