Dr. Janus Guðlaugsson, Bára Ólafsdóttir og Anna S. Jóhannesdóttir, starfsmenn hjá Janusi heilsueflingu.

Dr. Janus Guðlaugsson, Bára Ólafsdóttir og Anna S. Jóhannesdóttir, starfsmenn hjá Janusi heilsueflingu.

Nýr samstarfssamningur um heilsueflingu og heilsuvernd 65 ára og eldri í Reykjanesbæ og Grindavík. Einnig ný meðferðarúrræði fyrir fólk á öllum aldri sem glímir við offitu.

„Það er ánægjulegt að HSS hefur óskað eftir því að efla samstarfið við okkur en við höfum verið í mjög góðri samvinnu varðandi fjölþætta heilsueflingu,“ segir Dr. Janus Guðlaugsson, íþróttafræðingur og frumkvöðull í heilsueflingu 65 ára og eldri á Suðurnesjum.

 

Í nýjum samstarfssamningi Janusar heilsueflingar við HSS er unnið út frá þremur þáttum; í samstarfi um heilsuvernd aldraðra 65 ára og eldri og um áframhaldandi samvinnu á sviði blóðmælinga og greiningu á efnaskiptavillu. Loks er um að ræða samstarf um innleiðingu á heilstæðri þjónustu fyrir einstaklinga sem lifa með offitu en það verkefni snýr að öllum aldursþáttum, ekki bara fyrir eldri borgara.

Í heilsuvernd aldraðra 65+ er markmiðið er að tryggja þessum hóp heildstæða heilbrigðisþjónustu og innleiða heilsuvernd. Í þessum þætti verði í samvinnu við HSS m.a. farið yfir lyf og lyfjainntöku þátttakenda og skimað fyrir beinþéttni auk þess sem fræðsla er veitt.

Í verkefninu fyrir 65 ára og eldri verði samvinna á sviði blóðmælinga hjá þátttakendum í Fjölþættri heilsueflingu 65+ í Reykjanesbæ og Grindavík haldið áfram. Markmiðið sé m.a. að greina stöðu á efnaskiptavillu hjá þátttakendum og bregðast markvisst við ef þörf er á að geiningu lokinni Efnaskiptavilla er áhættuþáttur hjarta og æðasjúkdóma en hann má greina með þremur blóðbreytum; góða kósetrólinu (HDL), þríglýseríð og blóðsykri auk tveimur öðrum breytum; blóðþrýstingi og ummáli mittis. Hafi einstaklingur þrjá af þessum fimm þáttum utan við ákveðin viðmiðunarmörk er hann talinn vera í áttfalt meiri áhættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma en sá sem hefur þessa þætti innan eðlilegra marka. Yfir 30% þátttakenda sem greindust með efnaskiptavillu eftir sex mánaða þjálfun hjá Heilsueflingu Janusar í Reykjanesbæ fyrir þjálfun losuðu sig undan þessum kvilla með markvissri heilsueflingu og breyttum og bættum lífsstíl.

„Við erum að vinna að frekari lýðheilsu á Suðurnesjum. Við erum í þessari viku að útskrifa þátttakendur sem hófu heilsueflingu fyrir tveimur árum í Reykjanesbæ. Það má þó ekki gleyma því að þú útskrifast aldrei úr heilsueflingu. Þetta er lífstíðarverkefni en markmiðið okkar er að gera einstaklinginn sjálfbæran þannig að hann geti sinnt sínum málum áfram. Ef hann vill getur hann verið áfram hjá okkur. Starfið eftir afléttingar vegna veirunnar í byrjun árs gengur vel og við erum spennt fyrir framhaldinu. Það voru margir sem slökuðu á í kófinu og eru ánægðir að vera komnir aftur í gang,“ segir Janus.

Frétt af vef Víkurfrétta, birt 7. mars 2021