Formleg útskrift úr verkefninu Fjölþætt heilsuefling 65+ í Hafnarfirði –leið að farsælum efri árum á vegum Janusar heilsueflingar fór fram í Hafnarborg í vikunni. Geislandi hópur þátttakenda  sem lokið hafa þessu tveggja ára verkefni mættu til útskriftar, tóku á móti útskriftarskírteini og samfögnuðu með hópnum sem æft hefur saman undir handleiðslu Janusar Guðlaugssonar og hans öfluga teymis. Covid19 setti sitt strik á framkvæmd og fyrirkomulag en samstilltur hópurinn fann leiðir til heilsueflingar þrátt fyrir lokanir og takmarkanir á tímabilinu. Hluti hópsins ætlar að fá handleiðslu áfram meðan aðrir halda áfram sjálfir enda sjálfbærni í hreyfingu eftir útskrift eitt af yfirlýstum markmiðum verkefnisins.

HeilsueflingSept2020

Hópur nýliða hefst handa við æfingar í lok mánaðar

Í upphafi þessa árs útskrifaðist fyrsti hópurinn úr verkefninu í Hafnarfirði og markaði sú útskrift tímamót hjá Janusi heilsueflingu og Hafnarfjarðarbæ. Markviss heilsuefling hafnfirskra eldri borgara heldur áfram og eftir útskrift vikunnar eru um 110 þátttakendur virkir í verkefninu sem rúmar í heild um 160 þátttakendur. Kynningarfundur fyrir nýjan hóp var haldinn síðastliðinn þriðjudag. Yfir 60 manns mættu á fundinn og er nú þegar orðið fullt í hóp nýliða sem byrjar þjálfun í lok mánaðar. Verkefninu fylgir ekki bara hreyfing heldur einnig regluleg fræðsluerindi með áherslu á næringu og ýmsa heilsutengda þætti eins og núvitund, lyfjanotkun í tengslum við þjálfun og fræðslu um jafnvægi og æfingar fyrir jafnvægisþjálfun.

Heilsuapp aðgengilegt fyrir alla þátttakendur

Janus heilsuefling hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði vegna þróunar á heilsuappi sem nú er tilbúið til notkunar fyrir alla þátttakendur í verkefninu. Með þessu nýja smáforriti geta þátttakendur fylgt eftir eigin þjálfun í gegnum æfingaáætlanir, fylgst með árangri sínum eftir mælingar og haldið utan um daglega hreyfingu. Smáforritið er hugsað sem eftirfylgni og áframhaldandi hvatning fyrir hópinn.

Áhersla lögð á aukna virkni eldri borgara í Hafnarfirði

Heilsuefling eldri borgara er liður í heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar. Heilsustefnan nær til allra samfélagshópa, allra aldurshópa, allra skóla og stofnana og til sveitarfélagsins í heild. Fjölþætt heilsuefling 65+ á vegum Janusar heilsueflingar er einn angi af því mikilvæga verkefni að framfylgja heilsustefnunni. Heilsubærinn Hafnarfjörður hefur um árabil lagt áherslu á aukna virkni m.a. eldri borgara í Hafnarfirði með frístundastyrkjum, félagsstarfi og öðrum sértækum verkefnum s.s. hádegistónleikum í Hafnarborg og vikulegum heilsu- og menningargöngum yfir sumartímann svo fátt eitt sé nefnt. Í andlegri og líkamlegri hreyfingu býr mikilvæg forvörn sem hefur jákvæð áhrif á lífsgæði og á almenna þátttöku í lífi og starfi, á félagsleg tengsl og vináttu og ekki síst á búsetu til lengri tíma litið fyrir eldri aldurshópinn.