Það var við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 17. júní 2019, að Dr. Janus Guðlaugsson var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, fyrir framlag til eflingar heilbrigðs og íþrótta eldri borgara.

Frá vinstri: Forsetafrú Eliza Reid, forseti Íslands, dr. Janus Guðlaugsson, Hjálmar Árnason, Jakob Frímann Magnússon, Helgi Árnason, Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, Skúli Eggert Þórðarson, Bára Grímsdóttir, Bogi Ágústsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, Tatjana Latinovic, Hildur Kristjánsdóttir, Jón Ólafsson, Þórður Guðlaugsson og Halldóra Geirharðsdóttir. Á myndina vantar Jóhönnu Erlu Pálmadóttur.

Eftirfarndi tilkynningu sendi Janus frá sér nokkrum dögum eftir athöfnina:

„Kæru félagar og vinir.
Bestu þakkir fyrir hamingjuóskir og hlý orð í minn garð vegna orðuveitingar á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga þann 17. júní síðastliðinn. Með ákveðnu stolti en um leið auðmýkt og þakklæti tók ég á móti Fálkaorðu á Bessastöðum úr hendi forseta Íslands, Guðna Th Jóhannessyni.

Þegar ég fékk tilkynningu um orðuveitinguna og hvort ég vildi þiggja hana fylltist ég tómleika. Þessi tómleiki í upphafi breyttist síðan í hamingju og vellíðan. Hamingju yfir því að hafa getað látið gott af mér leiða í lífinu. Vellíðan yfir því að aðrir gætu haft not fyrir það sem ég hef verið að starfa við og móta. Hamingju yfir því að hafa fengið að starfa og vinna með einstökum eldri íbúum í Reykjanesbæ og Hafnarfirði á undanförnum misserum og hamingju og vellíðan yfir því að geta lagt lóð á vogarskálar heilsutengdra forvarna hér á landi.

Ég hef sjaldan á ævinni átt eins marga góða vini. Hinir eldri þátttakendur í verkefni okkar eru það yndislegasta fólk sem ég hef nokkurn tíma umgengist. Þetta eru frumkvöðlar sem ég dáist af. Þeir eiga orðið fastan sess í daglegu starfi mínu og lífi. Þessir einstaklingar, eins og stjórnendur þessara tveggja sveitarfélaga, þorðu að ryðja veg heilsueflingar fyrir eldri aldurshópa og treystu okkur að byggja upp heilsutengdar forvarnir innan sinna sveitarfélaga.

Orðuveitingin er tileinkuð þeim, þessum einstaklingum sem sköpuðu það hagkerfi sem við nú njótum og lifum í. Okkur sem yngri erum ber skylda til að gefa af okkur til þessarar kynslóðar, virða hana og meta að verðleikum. Þessum einstaklingum tileinka ég því þessa nafnbót. Þeir eiga það skilið að þeim sé gaumur gefinn. Þeir eiga jafn mikið í orðunni og ég. Nafnbótin er einnig tileinkuð samstarfsmönnum mínum, þeim Ingva Guðmundssyni og Þóroddi Einari Þórðarsyni, íþrótta- og heilsufræðingum og Láru Janusdóttur verkefnastóra. Án góðra samstarfsmanna er vonlaust að láta slík verk sem fjölþætta heilsueflingu tala.

Þá tileinka ég þennan heiður einnig fjölskyldu minni, Sigrúnu Eddu Knútsdóttur, konu minni, og börnum mínum Daða, Andra og Láru. Þakka þeim einnig einstök orð í minn garð. Þau hafa stutt mig og aðstoðað eins og enginn væri morgundagurinn. Koma öll með einum eða öðrum hætti að þróun verkefnisins: Fjölþætt heilsuefling í sveitarfélögum 65+ sem nú er í gangi. Þannig óskar maður sér að fjölskyldur geti starfað. Við eigum ekki börnin, höfum þau að láni eins og náttúruna og lífið.

Ég er einnig þakklátur þeim sveitarfélögum sem tekið hafa af skarið og gefið mér tækifæri að þróa doktorsverkefni mitt enn frekar. Þetta eru annars vegar Reykjanesbær undir forystu Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra og hins vegar heimabær minn Hafnarfjörður, sem hefur verið undir forystu Haralds Líndals og nú Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra. Bestu þakkir fyrir að treysta okkur fyrir því veigamikla verkefni að sinna heilsueflingu fyrir eldri einstaklinga í þessum sveitarfélögum.

Það er von mín að geta fengið áfram tækifæri til að þróa þetta verkefni hér á landi. Núverandi Landlæknir, Alma Möller, hefur séð til þess í samvinnu við okkur að verkefnið er nú í innleiðingu í tveimur Evrópulöndum. Bestu þakkir til starfsmanna hjá Embætti landlæknis. Þá hafa sérfræðingar á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) stutt mig dyggilega, bestu þakkir til þeirra.

Ég lít á orðuveitinguna og hlý orð ykkar sem frekari hvatningu til dáða á þessu sviði. Upphaf markvissrar heilsueflingar hefur því miður ekki verið nægilega vel skjalfest í íslensku samfélagi. Vonandi getum við í samvinnu ýtt undir að svo verði og að framkvæmdaferli í heilsueflingu á landsvísu verði að veruleika.

Ég lít einnig á þessa viðurkenningu sem hvatningu til frekari verka á þessu sviði. Lít á stuðning ykkar kæru vinir sem hvatningu um að gera enn betur, þannig að afkomendur okkar fái notið heilbrigðiskerfis sem þessi kynslóð sem nú er orðin 65+ hefur skapað og við njótum í dag. Segi þetta þar sem hætta er á að þröngt verði í búi framkvæmdavaldsins ætli það einungis að treysta á spítalavist og lækningar. Gríðarleg fjölgun eldri aldurshópa á næstu árum mun sjá til þess að erfitt verður að ná höndum saman innan heilbrigðiskerfis verði ekki gripið til róttækra aðgerða í heilsutengdum forvörnum allra aldurshópa.

Að mati sérfræðinga víða um heim, meðal annars í Bretlandi, mun hver króna sem varið er í heilsueflingu skila sér yfir 14 falt til baka til framkvæmdavaldsins, hafi þeir sem stýra því hverju sinni þor til að fjárfesta í fyrirbyggjandi heilsueflingu. Fyrirbyggjandi heilsuefling er grunnur góðs heilbrigðiskerfis. Með heilsueflingu að vopni getum við haldið áfram að byggja upp okkar framtíðar heilbrigðiskerfi í samvinnu við hjúkrun og lækningar, einnig hjá þeim sem komnir eru á efri ár, orðnir 65 ára eða eldri.

Endurtek mínar bestu þakkir fyrir góð orð í minn garð. Það er heiður að eiga ykkur að vinum. Njótið stundarinnar hvar sem þið eruð.

TAKK FYRIR MIG
Janus