Fjölþætt heilsuefling 65+ í Hafnarfirði

Fyrsta sex mánaða þrepi verkefnisins Fjölþætt heilsurækt í Hafnarfirði – heilsuefling fyrir eldri aldurshópa 65+ er nú lokið. Að loknum kynningarfundi í byrjun ársins voru rúmlega 170 þátttakenda skráðir í verkefnið en draga þurfti um þátttöku þar sem mun færri komust að en vildu. Þeir sem drógust inn á haustið, um 60 þátttakendur eru nú allir orðnir virkir þátttakendur. Um 200 einstaklingar taka nú þátt í verkefninu, um 150 á öðru þrepi þess og 60 á fyrsta þrepi.

Fjölþætt heilsuefling 65+ í Hafnarfirði

Fjölþætt heilsuefling 65+ í Hafnarfirði

Meginmarkmið verkefnis og fyrstu niðurstöður

Megin viðfangsefni þessa verkefnis er heilsutengt forvarnarstarf, markvisst lýðheilsutengt inngrip með raunprófanlegum aðferðum og mælingum. Áhersla er á daglega þolþjálfun og styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku auk mánaðarlegra fræðsluerinda um næringu, lyf og notkun lyfja tengda þjálfunartíma og aðra heilsutengda þætti. Þátttakendur sem hófu þátttöku í byrjun febrúar á þessu ári þreyttu mælingar fyrir þjálfunartíma og síðan aftur að 6 mánuðum liðnum. Einstaklega jákvæðar niðurstöður komu í ljós í kjölfar seinni mælingar miðað við grunnmælingar.

Dagleg hreyfing grunnur að góðri heilsu

Dagleg hreyfing jókst verulega hjá þátttakendum. Hún var fyrir verkefnið rúmlega 11 mínútur á dag en var við lok fyrsta þreps, eftir 6 mánuði, rúmlega 28 mínútur sem gera um 147% aukningu. Þetta er einstaklega ánægjulegt þar sem viðmið alþjóðlegra heilbrigðisstofnana er 30 mínútna dagleg hreyfing fyrir þennan aldurshóp. Þá var einnig veruleg aukning á þátttöku í styrktarþjálfun en aðeins um 15% þátttakenda höfðu stundað styrktarþjálfun að einhverju marki áður. Meðalfjöldi á viku að lokinni 6 mánaða þjálfun var 1,72 skipti en viðmiðin eru 2 skipti á viku frá alþjóðlegum heilbrigðisstofnunum. Þessi tvö atriði ásamt einstaklega vel sóttum fræðsluerindum og vilja hinna eldri til að kljást við breytingar á eigin lífsstíl skapa þann árangur sem náðst hefur í öðrum mælingum. Þær helstu eru:

  • Blóðþrýstingur, efri mörk, hafa lækkað verulega, eða úr 149 niður í 138 mmHg sem gera um 7% árangur, neðri mörkin lækkuðu einnig, úr 83 niður í 80 mmHg sem er ágætur árangur þar sem þátttakendur eru komnir niður í eðlilegan blóðþrýsting neðri marka og úr háþrýsingi efri marka
  • Hvíldarpúls lækkaði samhliða því sem afkastageta jókst um rúmlega 8% sem hvort tveggja eru ánægjuleg tíðindi hjá fólki á aldrinum 65–90 ára
  • Hreyfifærni. Styrkur í fótleggjum jókst um 17,2%, vöðvaþol arma um rúmlega 27% auk þess sem allar mælingar tengdar hreyfifærni færðust til betri vegar
  • Fituprósenta og fitumassi. Bæði fituprósenta og fitumassi lækkaði samhliða því sem vöðvamassi jókst
  • Lífsgæði færðust til betri vegar og almennt hefur þátttakendum liðið vel samhliða því að félagslegir þættir hafa eflst

Þessar niðurstöður eru sambærilegar niðurstöðum hjá þátttakendum í Reykjanesbæ sem taka þátt í sama verkefni. Verkefnið leiðir vonandi til þess að viðkomandi aðilar geti sinnt athöfnum daglegs lífs lengur, búið lengur í sjálfstæðri búsetu og orðið hvati fyrir aðra eldri einstaklinga og samfélagið allt til að efla eigin heilsu með markvissri heilsueflingu. Þess má geta að meðalaldur hópsins er rúmlega 73 ár, karla um 74 ár og kvenna tæplega 73 ár. Yngsti þátttakandi er 65 ára en sá elsti 90 ára.

Þakkir til þátttakenda

Fyrir þá sem standa að þessu verkefni, bæði frá Janusi heilsueflingu sem og Hafnarfjarðarbæ þá hefur það verið einstök ánægja að sinna þessum hópi eldri Hafnfirðinga. Hópurinn hefur verið duglegur að gefa af sér, flestir fylgja æfingaáætlunum vel og flestir staðráðnir í því að halda áfram. Brottfall milli þrepa var rúmlega 12% sem er langt umfram væntingar en gera má ráð fyrir allt að 20-40% brottfalli hjá þessum aldurshópi í verkefnum af þessum toga.

Nánari upplýsingar um alhliða þjónustu Hafnarfjarðarbæjar við eldri borgara er að finna HÉR

Allar upplýsingar um félagsstarf 60 ára + í Hafnarfirði er að finna á síðu Félags eldri borgara í Hafnarfirði eða HÉR